Heiðursfélagi og fyrsti formaður Nökkva Gunnar B Árnason kvaddur.

Okkar ágæti vinur og félagi Gunnar B Árnason er látinn. Hann var fyrsti formaður siglingaklúbbsins Nökkva sem hét þá Sjóferðafélags Akureyr. Hann var ötull hvatamaður að stofnunar siglingaklúbbs ásamt fleiri góðum félögum á þessum árum rétt upp úr 1960 og með samvinnu og dugnaði þá var félagið stofnað 8. Okt 1963, fyrsta siglingafélag landsins sem á 55 ára afmæli á árinu. Félagið fékk afhent gamalt flugskýlið til afnota en það stóð neðan og sunnan við þar sem leikhús bæjarins stendur núna. Fljótlega var farið að gera aðstöðu fyrir félagið og smá saman tókst að öngla saman fyrir tveimur seglbátum en áður höfðu klúbbfélagar fengið lánaða seglskútu sem var í eigu einstaklinga en ekki var mikið um að siglt væri sér til skemmtunar á þessum árum. Gunnar fór fyrstur manna til Englands að kynna sér siglingar og og fékk til þess styrk frá sjálfu Evrópuráðinu til þessarar farar. Hægt væri að skrifa langa sögu um Gunnar og aðkomu hans af siglingastarfi á Akureyri en 2013 tók hann ásamt þeim Hermanni Sigtryggsyni og Dúa Eðvaldssyni, einnig heiðursfélögum Nökkva, fyrstu skóflustungu að nýju athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva á leirunni. Einnig hélt hann á lofti sögu franskrar skútu sem var hluti af undirstöðu Tuliniusarbryggju á Nökkvasvæðinu sem er núna löngu horfin undir mikla uppfyllingu. Við kveðjum góðan vin og hugsjónamann um siglingar og sjósport á Pollinum, fyrsta formann Siglingaklúbbsins Nökkva. Jarðaför Gunnars verður á morgun mánudag 9. Apríl frá Akureyrarkirkju kl 13,30.